Íslenski boltinn

Fékk gult spjald fyrir að fagna góðri tæklingu samherja

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður fagnar Ívari eftir góðan varnarleik vinstri bakvarðarins.
Sigurður fagnar Ívari eftir góðan varnarleik vinstri bakvarðarins. vísir/stöð 2 sport

Það vantaði ekkert upp á baráttugleðina og samstöðuna hjá HK-ingum í leiknum gegn Blikum í Kórnum í gær. HK vann 1-0 sigur með marki Birnis Snæs Ingasonar.

HK-ingar vörðust með kjafti og klóm og voru duglegir að fagna vel heppnuðum varnarleik, enginn þó meira en markvörðurinn Sigurður Hrannar Björnsson.

Á 68. mínútu komst Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, í góða stöðu en Ívar Örn Jónsson, vinstri bakvörður HK, stöðvaði hann með góðri tæklingu. Hann var snöggur aftur á fætur og tæklaði boltann í Alexander Helga Sigurðarson og aftur fyrir.

Sigurður var svo ánægður með varnarleik Ívars að hann hljóp úr markinu til að fagna honum. Agli Arnari Sigurþórssyni, dómara leiksins, fannst full vel í fagnaðarlætin lagt og gaf Sigurði gula spjaldið.

„Mér finnst fáránlegt að hann fái gult spjald. Þegar við varnarhlunkarnir náum einni góðri tæklingu er það eins og skora mark fyrir okkur,“ sagði Reynir Leósson í Pepsi Max tilþrifunum í gær. „Gerðu það fyrir mig dómari að sleppa að spjalda fyrir svona.“

Klippa: Pepsi Max tilþrifin - Fékk gult fyrir að fagna tæklingu

Sigurður hefur leikið alla leiki HK á þessu tímabili í fjarveru Arnars Freys Ólafssonar. Hann hefur gert sín mistök en haldið hreinu í sigrum á tveimur af bestu liðum landsins, KR og Breiðabliki.

„Þetta er mikill sigur fyrir hann. Mér fannst hann njóta þess að spila þennan leik, svolítið keimlíkt því sem hann gerði gegn KR. Hann fær tækifæri upp í hendurnar sem hann hefur aldrei áður fengið, að spila stórleiki í efstu deild, og greip það svo sannarlega gegn KR,“ sagði Reynir um Sigurð. 

„Svo byggist upp einhver pressa og það er mikil umfjöllun um deildina og getur haft áhrif á menn. En mér fannst hann eins og hann hefði kastað því öllu út um gluggann, mætt og fundist hann ekki hafa neinu að tapa og notið þess að spila þennan grannaslag. Og hann var frábær í þessum leik.“

Klippa: Pepsi Max tilþrifin - Frammistaða Sigurðar gegn Breiðabliki

Sigurður, sem er 26 ára, lék áður með Víkingi R., Tindastóli, Hetti, Fram og Aftureldingu. Hann hefur verið hjá HK síðan 2018.

Næsti leikur HK er gegn Fylki í Árbænum á mánudaginn. Liðið mætir svo Aftureldingu í Kórnum í sextán liða úrslitum Mjólkurbikarsins á fimmtudaginn.


Tengdar fréttir

„Ekki til betri leikur til að rífa sig í gang“

„Ég var aldrei stressaður,“ sagði Ásgeir Börkur Ásgeirsson laufléttur í bragði eftir 1-0 sigur HK gegn Breiðabliki í Kópavogsslagnum í Kórnum í Pepsi Max-deildinni í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×