Kollegi Heimis Hallgrímssonar í katörsku úrvalsdeildinni í fótbolta, spænska goðsögnin Xavi, mun ekki geta stýrt liði Al Sadd á næstunni eftir að hafa greinst með kórónuveirusmit.
Keppni í deildinni hófst að nýju í gær eftir hlé frá því í mars. Aron Einar Gunnarsson var í byrjunarliði Al Arabi, sem Heimir stýrir, en liðið tapaði 1-0 á útivelli gegn Al Gharafa. Al Arabi er í 5. sæti og nú sjö stigum á eftir Al Gharafa eftir 18 leiki af 22 í deildinni.
Al Sadd, liðið sem Xavi stýrir, er í 3. sæti og í baráttu um að komast í forkeppni Meistaradeildar Asíu. Liðið mætir Al Khor í dag án Xavi sem kveðst hafa greinst með smit fyrir nokkrum dögum við reglubundið próf.
Xavi : A few days ago, following the @qsl protocol, I tested positive in the last COVID19 test. Fortunately, I m feeling ok, but I will be isolated until I am given the all clear. When the health services allow it, I will be very eager to return to my daily routine and to work.
— AlSadd S.C | (@AlsaddSC) July 25, 2020
„Sem betur fer líður mér ágætlega en ég verð í einangrun þar til að ég fæ grænt ljós. Þegar heilbrigðisþjónustan leyfir það mun ég snúa afar spenntur aftur til minna starfa,“ sagði Xavi.
Xavi var ráðinn þjálfari Al Sadd fyrir rúmu ári eftir magnaðan feril sem leikmaður en hann vann til fjölda titla með Barcelona og spænska landsliðinu.