Innlent

Fjögur ný innanlandssmit greindust í gær

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Alls eru 28 í einangrun með virk smit á landinu.
Alls eru 28 í einangrun með virk smit á landinu. Þorkell Þorkelsson/Landspítali háskólasjúkrahús

Fjögur ný innanlandssmit kórónuveiru greindust á landinu síðasta sólarhringinn. Ekki er búið að skera úr um það hvort þau séu tengd þeim sýkingum sem komið hafa upp síðustu daga. Fundi samráðshóps um næstu skref veiruaðgerða lauk nú á ellefta tímanum.

Jóhann K. Jóhannsson samskiptastjóri almannavarna segir í samtali við fréttastofu að á fundinum, þar sem eiga sæti landlæknir, sóttvarnalæknir, fulltrúi stjórnvalda og almannavarnir, hafi verið farið yfir tölulegar upplýsingar fyrir síðasta sólarhring.

„Og staðan er þannig núna að það eru 28 komnir í einangrun og einn bíður eftir niðurstöðu mótefnamælingar. 201 er kominn í sóttkví og það hafa bæst við fjögur innlend smit frá því í gær,“ segir Jóhann.

„Í þessum heildarfjölda eru níu tengdir aðilar og hafa verið gerðar átta raðgreiningar, sem hafa sýnt fram á að það er sama mynstur í þeim.“

Ekki sé komin niðurstaða úr raðgreiningu á þessum nýju smitum og því ekki komið í ljós hvort þau séu tengd þeim sýkingum sem hafa verið til umfjöllunar undanfarna daga.

Gert er ráð fyrir að yfirvöld boði hertari aðgerðir til að hefta útbreiðslu veirunnar í ljósi þeirrar stöðu sem komin er upp. Um næstu skref segir Jóhann að það sé nú sóttvarnalæknis að taka ákvörðun þess efnis.

„Hann mun skila minnisblaði til heilbrigðisráðherra í dag um stöðuna og hann þarf að taka ákvörðun um framhaldið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×