Enski boltinn

Stuðningsmenn Newcastle í öngum sínum

Sindri Sverrisson skrifar
Newcastle endaði í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á nýafstaðinni leiktíð og má muna fífil sinn fegurri.
Newcastle endaði í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á nýafstaðinni leiktíð og má muna fífil sinn fegurri. VÍSIR/GETTY

Stuðningsmenn Newcastle segjast vera gjörsamlega miður sín eftir að ljóst varð að ekkert yrði af kaupum Sádí-Araba á enska knattspyrnufélaginu.

Fjárfestar á vegum krónsprins Sádí-Arabíu samþykktu í apríl að kaupa Newcastle af Mike Ashley fyrir 300 milljónir punda. Kaupin voru umdeild vegna stöðu mannréttinda í Sádí-Arabíu, og meðal annars mótmæltu mannréttindasamtökin Amnesty International þeim.

Kaupin hafa ekki gengið í gegn þar sem að enska úrvalsdeildin hefur verið með þau til skoðunar, og samkvæmt BBC verður nú ekkert af kaupunum þar sem þolinmæði sádí-arabísku fjárfestanna er á þrotum.

„Stuðningsmenn eru í öngum sínum,“ sagði Michelle George, stuðningsmaður Newcastle.

„Sem stuðningsmenn þá eru hjörtu okkar brostin. Þetta hljómar kannski dramatískt en við höfum nú þjáðst í 13 ár með Ashley við stjórnvölinn vegna skorts á áhuga og fjárfestingu í félaginu,“ sagði George og bætti við:

„Þess vegna er erfitt að sætta sig við hvernig þetta gekk fyrir sig, tímann sem þetta tók og að fá svo þessar fréttir, og við erum ekki enn með heildarmyndina.“

Samkvæmt könnun á meðal stuðningsmanna Newcastle vildu 97% þeirra að kaupin myndu ganga í gegn, en gríðarleg óánægja hefur verið með störf núverandi eiganda. Greg Tomlinson segir að enska úrvalsdeildin skuldi sér og öðrum stuðningsmönnum Newcastle svör um hægaganginn við að skoða kaupin. Samkvæmt BBC áttu lögfræðingar deildarinnar í erfiðleikum með að greina nákvæm tengsl fjárfestahópsins og stjórnvalda í Sádí-Arabíu.

„Það voru allir spenntir fyrir þessu tilboði og mögulegri fjárfestingu í borginni, svo þarna fer í súginn gott tækifæri fyrir Newcastle og allt norðaustur svæði landsins,“ sagði Tomlinson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×