Erlent

Handtóku ungling vegna árásar á vinsæla Twitter-aðganga

Sylvía Hall skrifar
Twitter-síður voru vettvangur tilraunar til fjársvika.
Twitter-síður voru vettvangur tilraunar til fjársvika. Getty/SOPA

Unglingur í Flórídaríki í Bandaríkjunum hefur verið handtekinn vegna netárásar á vinsæla Twitter-aðganga fyrr í mánuðinum. Meðal þeirra sem urðu fyrir barðinu á tölvuþrjótnum voru hjónin Kanye West og Kim Kardashian, Barack Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseti og forsetaframbjóðandinn Joe Biden.

Tíst voru send út í nafni þessara einstaklinga þar sem fylgjendur þeirra voru beðnir um að senda greiðslur í rafmyntinni bitcoin. Áður var greint frá því að um fjögur hundruð slíkar greiðslur hafi farið fram að upphæð um 120 þúsund dollara, sem samsvarar tæplega 17 milljónum íslenskra króna.

Á vef breska ríkisútvarpsins segir að saksóknari í Hillsborough hafi lagt fram þrjátíu ákæruliði á hendur unglingsins, til að mynda fyrir skipulögð svik og notkun á persónuupplýsingum í sviksamlegum tilgangi.

„Þessir glæpir voru framdir með því að nota nöfn frægra einstaklinga, en þau eru ekki aðalfórnarlömbin hérna,“ segir Andrew Warren saksóknari um málið. Hann segir árásina hafa verið til þess fallna að stela fjármunum af venjulegum Bandaríkjamönnum víðs vegar um Bandaríkin.

Málið hefur einnig endað á borði alríkislögreglunnar í Bandaríkjunum sem rannsakaði málið.

Færslurnar sem voru sendar út voru á þann veg að fólk var beðið um að senda ákveðna upphæð í rafmynt og sú upphæð yrði tvöfölduð og millifærð til baka. Jack Dorsey, stofnandi Twitter, sagðist vera miður sín yfir því sem gerðist og lofaði því að fyrirtækið myndi gera allt sem í sínu valdi stæði til þess að koma í veg fyrir að slíkt kæmi fyrir aftur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×