Enski boltinn

Hverjir væru markahæstir ef víti væru tekin út fyrir sviga?

Ísak Hallmundarson skrifar
Jamie Vardy vann gullskóinn í ensku úrvalsdeildinni þetta tímabilið.
Jamie Vardy vann gullskóinn í ensku úrvalsdeildinni þetta tímabilið. getty/Rich Linley

Það hefur oft verið rætt meðal sparkspekinga hvort mörk úr vítaspyrnum eigi að fá að telja í baráttunni um gullskóinn. Sú umræða er orðin háværari núna eftir að Ciro Immobile og Cristiano Ronaldo voru markahæstu menn í ítölsku úrvalsdeildinni, en þeir skoruðu úr þónokkrum vítaspyrnum.

Ciro Immobile skoraði 14 mörk af vítapunktinum á nýliðnu tímabili af þeim 36 mörkum sem hann skoraði í ítölsku úrvalsdeildinni. Tólf mörk af 31 marki Cristiano Ronaldo í deildinni komu af vítapunktinum. Ef vítaspyrnur væru dregnar frá væri Francesco Caputo, leikmaður Sassuolo, næstmarkahæstur í ítölsku deildinni með 19 mörk ásamt Cristiano Ronaldo.

Vefsíðan FootballCritic tekur saman lista yfir þá sem hefðu unnið gullskóinn í ensku úrvalsdeildinni síðustu ár ef vítaspyrnur myndu ekki telja með.

Jamie Vardy sem hreppti gullskóinn í ár með því að skora 23 mörk væri aðeins í 4. sæti ef eingöngu eru talin með mörk sem ekki eru skoruð af vítapunktinum. Danny Ings hefði verið markahæstur í ár með 21 mark, en hann skoraði aðeins eitt af vítapunktinum á nýafstaðinni leiktíð og var samtals með 22 mörk.

Pierre-Emerick Aubameyang væri annar með 20 mörk, hann skoraði tvö af vítapunktinum og var því með 22 mörk í heild. Raheem Sterling hefði verið í þriðja sæti með 20 mörk en hann skoraði ekki eitt einasta mark úr víti á leiktíðinni. Jamie Vardy væri síðan í fjórða sæti með 19 mörk, fjögur af þeim 23 sem hann skoraði komu úr vítaspyrnum.

Í fyrra hefði Sadio Mane hreppt gullskóinn, þá var hann með 22 mörk eins og Mohammed Salah, en Mane skoraði ekkert þeirra úr víti. Árið 2018 skoraði Salah hinsvegar 32 mörk og aðeins eitt þeirra úr víti og átti hann þann markakóngstitil fyllilega skilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×