Erlent

Krefst afsagnar konungs vegna máls Jóhanns Karls

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Leiðtogi Katalóníu krafðist þess í dag að konungur Spánar afsalaði sér krúnunni eftir að Jóhann Karl faðir hans og fyrrverandi konungur flúði land í gær grunaður um spillingu.

Jóhann Karl var konungur Spánar frá 1975 til 2014, þegar hann steig til hliðar. Hann var á sínum tíma álitinn lýðræðishetja en hann tók við völdum af einræðisherranum Francisco Franco. Í upphafi valdatíðar sinnar kom konungurinn á lýðræðisumbótum í landinu. Þá spilaði hann einnig stórt hlutverk í að kveða niður valdarán francoista úr röðum hersins í febrúar 1981.

Þegar hann steig til hliðar sem konungur missti hann friðhelgi sína. Hæstiréttur Spánar hóf rannsókn á meintri spillingu konungsins fyrrverandi fyrr á árinu og telur að konungurinn hafi þegið milljónir efra frá Abdúlla, fyrrverandi konungi Sádi-Arabíu. Jóhann Karl á svo að hafa lagt háar upphæðir inn á félaga sinn, að því er virðist til að fela peningana frá stjórnvöldum.

Í gær sendi Jóhann Karl syni sínum, Filippusi sjötta konungi, bréf þar sem hann sagðist ætla að yfirgefa Spán. Spænskir miðlar sögðu í dag að Jóhann Karl væri kominn til Dóminíska lýðveldisins.

Quim Torra, aðskilnaðarsinni og leiðtogi héraðsstjórnarinnar í Katalóníu, var harðorður um málið í dag.

„Ég krefst þess að Filippus sjötti segi af sér svo spænskt samfélag geti grafið sig upp úr þessum pytti. Þess vegna hef ég beðið forseta katalónska þingsins um að boða til aukafundar um þessa krísu sem spænska krúnan hefur valdið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×