Einstaklingur búsettur í Vestmannaeyjum hefur greinst með kórónuveiruna og er nú kominn í einangrun. Viðkomandi var í sóttkví þegar hann greindist. 75 eru nú í sóttkví í Vestmannaeyjum.
Greint var frá því í gær að sex einstaklingar, sem búa á höfuðborgarsvæðinu, hefðu greinst með kórónuveiruna eftir að hafa heimsótt Vestmannaeyjar yfir verslunarmannahelgina. Einn þessara sex, karl á fertugsaldri, er í öndunarvél á gjörgæslu.
Íslensk erfðagreining mun standa fyrir skimun í Vestmannaeyjum á mánudag til að kanna útbreiðslu veirunnar þar.
Þrír greindust með veiruna innanlands í gær, þar af voru tveir í sóttkví. Fjórir greindust á landamærunum.