Viðvaranir vegna veðurs eru í gildi um allt land í dag. Vetrarfærð er í flestum landshlutum og var versnandi veður á Suður- og Suðvesturlandi nú í morgun.
Hellisheiði, Þrenglsum, Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði og Fróárheiði hefur verið lokað vegna veðurs og ófærðar.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni má búast við óvissustigi í dag á Mýrdalssandi, Holtavörðuheiði, við Reynisfjall og undir Eyjafjöllum. Komið gæti til lokana á vegunum á milli 9 og 16 vegna veðurs og ófærðar.
Hið sama á við um Hófaskarð, Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Öxnadalsheiði en þar gæti komið til lokana á tímabilinu 12 til 20 í dag.
Hálka eða snjóþekja er á vegum á Suður- og Suðvesturlandi og er víða skafrenningur á Suðvesturlandi. Mjög slæmt skyggni er á Reykjanesbraut og er þar bæði hálka og skafrenningur. Mjög hvasst var við Markarfljót og undir Eyjafjöllum nú í morgun.
Á Vestfjörðum og Norðurlandi er víðast hvar hálka eða snjóþekja. Þungfært er eftir nóttina á Kleifaheiði, Mikladal og Hálfdán en Vegagerðin vinnur að hreinsun. Þæfingsfærð er á Þveráfjalli og þungfært milli Hofsóss og Ketiláss.
Fólk er beðið um að fylgjast vel með færð á vef Vegagerðarinnar og Twitter-síðu hennar.
Fréttin var uppfærð klukkan 9:30 með fregnum af lokun Hellisheiðar og Þrengsla.
Óvissustig víða vegna veðurs: Búið að loka Hellisheiði og Þrengslum
