Samúel Kári Friðjónsson hefur fært sig frá Noregi yfir til Þýskalands en hann hefur samið við Paderborn 07.
Paderborn leikur í þýsku úrvalsdeildinni en liðið er á botni deildarinnar með tólf stig en Samúel Kári á að baki 8 A-landsleiki og var í HM-hópnum í Rússlandi sumarið 2018.
Þrjú stig eru upp í umspilssæti um fall og fimm stig upp í Köln sem er í fimmtánda sætinu en liðið í 15. sætinu heldur sæti sínu í deildinni.
Zweiter Winter-Zugang: Samuel Kari #Fridjonsson stärkt das Mittelfeld | https://t.co/Dzq3lR0uwc | #Velkominn#SCP07pic.twitter.com/nX1eGYyinU
— SC Paderborn 07 (@SCPaderborn07) January 18, 2020
Keflvíkingurinn kemur til liðsins frá Vålerenga en hann var á láni frá Vålerenga hjá Viking á síðustu leiktíð þar sem hann varð meðal annars bikarmeistari.
„Samúel er ungur leikmaður með mikla hæfileika. Hann hentar vel inn í okkar stíl. Það er hægt að nota hann á margan hátt á miðjunni sem er mikilvægt fyrir okkur,“ sagði Martin Przondziono, yfirmaður knattspyrnumála, hjá félaginu.
Paderborn leikur við Bayer Leverkusen á morgun er Bundesligan fer aftur af stað eftir hlé.
Samúel Kári er annar Íslendingurinn í Bundesligunni en Alfreð Fininbogason er á mála hjá Augsburg.