Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í dag að skipa starfshóp sem fara mun yfir framkvæmdaáætlun ofanflóðasjóðs í kjölfar snjóflóðanna sem féllu á Flateyri og við Suðureyri 14. janúar síðastliðinn. Í starfshópnum munu sitja fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, að því er fram kemur í tilkynningu.
Hópurinn mun jafnframt leggja til heildstætt mat á framkvæmdir við ofanflóðavarnir með áherslu á tímabil næstu fjármálaáætlunar fyrir árin 2021-2025 sem kynnt verður í vor.
Verkefni starfhópsins verður að skoða forgangsröðun fjármuna til verkefna ofanflóðasjóðs og er gert ráð fyrir að hópurinn muni skila af sér tillögum til ríkisstjórnar fyrir 14. febrúar næstkomandi.
Ofanflóðavarnir á Vestfjörðum, sem og annars staðar á landinu, hafa sætt nokkurri gagnrýni eftir að flóðin féllu síðla kvölds á þriðjudag. Komið hefur fram að bæði flóðin á Flateyri féllu yfir varnargarðinn og þá þurrkaðist atvinnulíf bæjarins nær út á örskömmum tíma þegar annað flóðið kom inn í höfnina.