Flóðin úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili eru með allra stærstu snjóflóðum sem fallið hafa á leiðigarða í heiminum
Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands en þar segir að snjóathugunarmenn og sérfræðingar Veðurstofunnar hafi í gær og dag unnið við mælingar á snjóflóðunum á Flateyri.
Flóðin flæddu yfir leiðigarðana ofan Flateyrar á löngum köflum og mikinn flóðsnjó er að finna milli garðanna ofan þvergarðsins sem myndar tengingu á milli þeirra skammt ofan byggðarinnar.

Neðan þvergarðsins eru flóðtungur innan við báða leiðigarðana sem hafa bæði kastast yfir leiðigarðana og einnig að einhverju leyti flætt yfir þvergarðinn eftir að hafa kastast yfir leiðigarðana ofar, að því er segir á vef Veðurstofunnar.
Þar segir jafnframt að flóðin úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili séu með allra stærstu snjóflóðum sem fallið hafa á leiðigarða í heiminum og gefi þau mikilsverðar upplýsingar um streymi snjóflóða sem lenda á fyrirstöðum og virkni leiðigarða.
Líkt og fram hefur komið fór annað snjóflóðið á hús að Ólafstúni 14 þaðan sem unglingstúlku var bjargað.
„Flóðin virðast hafa kastast yfir garðana á talsverðri ferð vegna þess að ofarlega á innri hlið varnargarðanna er óhreyfður snjór sem flóðin hafa ekki sópað með sér en neðar hafa þau streymt með jörðu og brotið gróður og eyðilagt skilti og önnur mannvirki sem þar var að finna. Skollahvilftarflóðið rann alveg yfir svæðið á milli garðanna og upp að Innra-Bæjargilsgarðinum að innanverðu,“ að því er segir á vef Veðurstofunnar.
Mælingar á rúmmáli flóðanna liggja ekki fyrir en út frá tiltækum upplýsingum er áætlað að Skollahvilftarflóðið kunni að vera sambærileg að stærð við flóðið sem féll úr Skollahvilft í október 1995. Flóðið úr Innra-Bæjargili var mun minna að rúmmáli enda upptakasvæði þess minna. Meðfylgjandi myndir sýna ummerki flóðanna á leiðigörðunum.