Fótbolti

Tvö rauð spjöld og sjö mörk er Atalanta valtaði yfir Torino

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Josip Ilicic skoraði þrennu er Atalanta pakkaði Torino saman.
Josip Ilicic skoraði þrennu er Atalanta pakkaði Torino saman. Vísir/Getty

Atalanta gerði sér lítið fyrir og vann sjö marka sigur á Torino í ítölsku úrvalsdeildinni í kvöld. Heimamenn í Torino fengu tvö rauð spjöld ásamt því að fá á sig sjö mörk, lokatölur 7-0 gestunum í vil.

Josip
 Ilicic kom gestunum yfir á 17. mínútu. Áður en fyrri hálfleikur var úti höfðu Robin Gosens og Duvan Zapata, úr vítaspyrnu, bætt við mörkum. Staðan því 3-0 í hálfleik og ljóst að Torino áttu við ofurefli að etja.

Ilicic gerði endanlega út um leikinn með tveimur mörkum á tveimur mínútum í upphafi síðari hálfleiks. 

Í kjölfarið fékk Amandi Izzo sitt annað gula spjald hjá Torino og þeir því manni færri og fimm mörkum undir. 

Luis Muriel bætti svo við sjötta marki Atalanta með marki af vítapunktinum á 86. mínútu. Tveimur mínútum síðar bætti Muriel við sjöunda marki leiksins og skömmu síðar fékk Sasa Lukic beint rautt spjald í liði Torino.

Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 7-0 gestunum í Atalanta í vil.

Atalanta fara upp fyrir Roma í töflunni með 38 stig eftir 21 umferð. Torino eru í 9. sæti með 27 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×