Fótbolti

Ögmundur mætti þremur vítaspyrnum í tapi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ögmundur í leik með Larissa
Ögmundur í leik með Larissa Vísir/Getty

Ögmundur Kristinsson stóð á milli stanganna er Larissa tapaði 2-0 fyrir Panathinaikos á heimavelli í grísku úrvalsdeildinni í kvöld. Bæði mörk gestanna komu af vítapunktinum. Alls fengu gestirnir þrjár vítaspyrnur í leiknum, Ögmundur varði eina þeirra.

Hinn einkar geðþekki Anastasios Chatzigiovannis skoraði fyrra mark leiksins á 25. mínútu og staðan þar með orðin 1-0 Panathinaikos í vil. Reyndist það eina mark fyrri  hálfleiks. Þremur mínútum síðar var Chatzigiovannis mættur aftur á vítapunktinn en Ögmundur las hann eins og opna bók í þetta skiptið og greip hörmulega spyrnu Grikkjans.

Það var svo undir lok leiks sem Larissa fékk dæmda á sig enn eina vítaspyrnuna. Ögmundur fékk í kjölfarið gult spjald fyrir mótmæli, einn af fimm leikmönnum Larissa sem fengu að líta gula spjaldið í leik kvöldsins.

Að þessu sinni var það Ioannis Bouzoukis sem fór á punktinn fyrir gestina og skoraði hann, líkt og Chatzigiovannis hafði gert í fyrra skiptið. Staðan því orðin 2-0 og reyndust það lokatölur leiksins.



Larissa í 9. sæti deildarinnar með 24 stig þegar 21. umferð er lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×