Lögmenn Donald Trump Bandaríkjaforseta segja að tilraunir Demókrata að reyna að bola forsetanum úr embætti myndu setja „mjög, mjög hættulegt“ fordæmi á kosningaári.
Réttarhöld öldungadeildarinnar vegna ákæru á hendur Trump, þar sem hann er sakaður um embættisbrot, héldu áfram í dag, þar sem lögmenn forsetans hófu loks málsvörn sína.
Pat Cipollone, sem fer fyrir lögmannateymi forsetans, sagði að ef öldungadeildin myndi dæma forsetann sekan og hrekja hann úr embætti, væri verið að svipta kjósendum þeim rétti að koma skoðun sinni á framfæri í forsetakosningunum sem fram fara 3. nóvember næstkomandi.
Sakaður um valdníðslu og að hindra störf þingsins
Trump er þriðji forseti Bandaríkjanna í sögunni sem ákærður er fyrir brot í embætti.
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings, þar sem Demókratar eru í meirihluta, samþykkti fyrr í mánuðinum að ákæra forsetann fyrir að hafa beitt úkraínsk stjórnvöld þrýsting og hefja rannsókn á Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og einum þeirra sem sækist eftir að verða forsetaefni Demókrata, og syni hans.
Er Trump sakaður um valdníðslu og að hafa hindrað störf fulltrúadeildarinnar.
Mestu afskipti sögunnar
Verjendur Trump reyndu í dag að snúa rökum Demókrata um afskipti af forsetakosningum í höndunum á þeim með því að vara við því að bola forseta frá innan við tíu mánuðum áður en bandarísku þjóðinni gefst færi á að greiða atkvæði um hvort Trump eigi að sitja annað kjörtímabil.
„Sé litið til alls tals þeirra um afskipti af kosningum […] þá eru þeir hér að standa fyrir mestu afskiptum af kosningum í sögu Bandaríkjanna, og við megum ekki leyfa því að gerast. Það myndi brjóta gegn stjórnarskrá okkar. Það myndi brjóta gegn sögu okkar. Það myndi brjóta gegn skuldbindingum okkar gagnvart framtíðinni,“ sagði Cipollone.
Trump hefur hafnað því að hafa haft rangt við.
Að öllum líkindum sýknaður
Fastlega er búist við að Trump verði sýknaður í réttarhöldum öldungadeildarinnar þar sem Repúblikanar eru í meirihluta.
Tveir þriðju þingmanna þurfa að vara samþykkir því að sakfella forsetann til að honum verði komið frá.
Enginn þingmaður öldungadeildarinnar hefur talað fyrir því að sakfella Trump.