Viðskipti innlent

Loðnuleiðangurinn á hraðri siglingu í átt til Vestfjarða

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ferlar skipanna um eittleytið í dag. Hákon EA er táknaður með bleikum lit, Polar Amaroq með gulum og Árni Friðriksson með ljósbláum.
Ferlar skipanna um eittleytið í dag. Hákon EA er táknaður með bleikum lit, Polar Amaroq með gulum og Árni Friðriksson með ljósbláum. Mynd/Hafrannsóknastofnun.

Hléið sem loðnuleitarleiðangur Hafrannsóknastofnunar gerði á loðnuleitinni í gær vegna illviðris reyndist mun styttra en búist var við. Skipin þrjú lögðu öll úr höfn frá Akureyri á ný í kringum miðnætti en áður var búist við að þau myndu bíða af sér óveðrið fram yfir hádegi í dag. 

Skipin þrjú, Árni Friðriksson, Hákon og Polar Amaraoq, voru um eittleytið í dag á siglingu norður af Húnaflóa og Ströndum og stefndu á Vestfjarðamið. Hákon var kominn lengst, var norðaustur af Hornbjargi, Polar Amaroq var út af Geirólfsgnúp en Árni norðvestur af Skaga. 

Fylgjast má með leitinni á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar. 

Leiðangursstjórinn Birkir Bárðarson sagði í gær að mjög lítið hefði fundist af loðnu til þessa, einungis hrafl eða smátorfur á stangli, en hvergi verulegt magn. Taldi hann að loðnan væri ekki gengin austur fyrir Kolbeinseyjarhrygg. 

Stefnan núna er að leita vestan Kolbeinbeinseyjarhryggs sem og Vestfjarðamið suður til Víkuráls djúpt undan sunnanverðum Vestfjörðum. 

Leitað er í kappi við tímann en miklir hagsmunir eru í húfi að loðna finnist í veiðanlegu magni sem fyrst. Veiðitímabilið er takmarkað en venjulega hefur loðnuvertíð lokið um eða upp úr miðjum marsmánuði. 

Í greiningu hagfræðideildar Landsbankans fyrir helgi kom fram að útflutningsverðmæti loðnu á ári yfir landið í heild var að meðaltali 18,1 milljarður króna á árabilinu 2016-2018. Áætlað var að Vestmannaeyjar gætu orðið af 5,8 milljarða króna útflutningstekjum, bregðist loðnuvertíð í ár, og Neskaupstaður orðið af 2,9 milljarða króna tekjum. Aðrar byggðir sem vænst geta mikilla tekna af loðnuvinnslu eru Hornafjörður, Fáskrúðsfjörður, Eskifjörður, Seyðisfjörður, Vopnafjörður og Þórshöfn. 

Í frétt Stöðvar 2 frá upphafi loðnuleitarinnar í síðustu viku kom fram að sjómenn hefðu orðið varir við loðnu á Vestfjarðamiðum:


Tengdar fréttir

Vonast til að finna tuttugu milljarða króna auðlind

Loðnuleit hefst í næstu viku eftir að samkomulag náðist um að ríkið greiði helming leitarkostnaðar útgerðarfyrirtækja, sem leggja fram tvö til þrjú skip í leitina á móti einu skipi Hafrannsóknastofnunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×