Íslenski boltinn

Alfreð Elías: Vorum klárlega sjálfum okkar verstar í dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alfreð Elías  var sáttur með spilamennskuna í dag en ekki færanýtinguna.
Alfreð Elías  var sáttur með spilamennskuna í dag en ekki færanýtinguna. vísir/vilhelm

Alfreð Elías Jóhannsson - þjálfari Selfyssinga – átti eðlilega erfitt með að koma fyrir sig orði eftir að hafa horft upp á lið sitt nánast yfirspila Fylki frá upphafi til enda en tapa leiknum samt sem áður.

Selfoss tapaði 1-0 fyrir Fylki í Pepsi Max deild kvenna en markið skoraði Bryndís Arna Níelsdóttir í uppbótartíma leiksins.

„Mjög illa sko. Hvað á ég að segja, þetta er hálfgert kjaftshögg – rothögg nánast – að fá þetta mark á okkur hérna í uppbótartíma því við vorum klárlega sjálfum okkar verstar í dag. Þetta var einn af okkar betri leikjum í sumar, við stjórnuðum leiknum frá A til Ö en fyrir framan markið vorum við ekki að gera gott mót,“ sagði Alfreð Elías um líðan sína að leik loknum.

„Einhverra hluta vegna er þetta stundum svona og þetta gengur ekki. En við héldum áfram, og áfram og áfram að reyna en svo fá þær mark eftir klafs í teignum. Þetta er alveg týpískt en svona er þetta og við verðum að halda áfram en eins og ég sagði við stelpurnar inn í klefa þá er ég mjög ánægður með frammistöðuna í leiknum. Við fáum mjög góð færi en þurfum að nýta þau betur,“ sagði Alfreð að lokum varðandi frammistöðu leikmanna sinna í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×