Enski boltinn

Tottenham rifjar upp glæsimark Gylfa gegn Southampton | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi fagnar markinu fallega gegn Southampton í mars 2014.
Gylfi fagnar markinu fallega gegn Southampton í mars 2014. vísir/getty

Í tilefni af endurteknum leik Tottenham og Southampton í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í kvöld birti Spurs myndband af glæsimarki Gylfa Þórs Sigurðssonar í leik liðanna fyrir tæpum sex árum á Twitter.

Gylfi skoraði sigurmark Tottenham í umræddum leik í ensku úrvalsdeildinni sem fór fram á White Hart Lane 23. mars 2014.

Southampton komst í 0-2 með mörkum Jays Rodríguez og Adams Lallana en Christian Eriksen minnkaði muninn á 31. mínútu.

Gylfi kom inn á sem varamaður fyrir Mousa Dembélé í hálfleik. Strax á upphafsmínútu seinni hálfleiks jafnaði Eriksen í 2-2 með sínu öðru marki.

Þegar tvær mínútur voru komnar fram fyrir venjulegan leiktíma fékk Gylfi boltann fyrir utan vítateig frá Eriksen. Hafnfirðingurinn lét vaða og skoraði með frábæru skoti. Markið má sjá hér fyrir neðan.



Knattspyrnustjóri Tottenham á þessum tíma var Tim Sherwood sem tók við eftir að André Villas-Boas var rekinn í desember 2013.

Stjóri Southampton var hins vegar Mauricio Pochettino sem tók við Tottenham eftir tímabilið og stýrði liðinu með góðum árangri um rúmlega fimm ára skeið.

Gylfi skoraði alls 13 mörk í 83 leikjum fyrir Tottenham á árunum 2012-14.

Leikur Tottenham og Southampton hefst klukkan 19:45 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Sigurvegarinn mætir Norwich City í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×