Innlent

Annar jarðskjálfti að stærð 3,3 mældist við Grindavík

Eiður Þór Árnason skrifar
Grindavík með Þorbjörn í baksýn.
Grindavík með Þorbjörn í baksýn. Vísir/vilhelm

Jarðskjálfti að stærð 3,3 mældist 6,1 kílómetra norðnorðaustur af Grindavík klukkan 19:04 í kvöld. Skjálftinn er hluti af áframhaldandi skjálftavirkni í grennd við Grindavík.

Frá miðnætti hafa um 150 jarðskjálftar mælst á svæðinu, þeir stærstu 3,3 að stærð klukkan 09:00 í morgun og svo annar sömu stærðar nú í kvöld, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Frá 21. janúar hafa yfir eitt þúsund skjálftar verið staðsettir á svæðinu, þar af um sjö hundruð yfir helgina. Mælingar jarðvísindamanna Veðurstofunnar sýna áframhaldandi landris á svæðinu vestan við Þorbjörn en land hefur þar risið yfir fjóra sentímetra frá 20. janúar síðastliðnum.

Með landrisinu má búast við áframhaldandi jarðskjálftavirkni á svæðinu. Líklegasta skýring þessarar virkni er kvikuinnskot á þriggja til níu kílómetra dýpi rétt vestan við Þorbjörn, að sögn Veðurstofunnar. Líklegast er að virkninni ljúki án eldsumbrota.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×