Öldungadeild ríkisþings Utah í Bandaríkjunum samþykkti frumvarp sem myndi afglæpavæða fjölkvæni á meðal fullorðinna einstaklinga sem veita samþykki sitt í ríkinu. Fjölkvæni tíðkast á meðal mormóna sem eru fjölmennir í Utah en verði frumvarpið að lögum yrði það ekki lengur talið alvarlegur glæpur.
Repúblikanar, sem mynda meirihluta í öldungadeildinni, samþykktu að gera fjölkvæni að minniháttar broti. Samkvæmt frumvarpinu yrði litið á það á sama hátt og umferðarlagabrot, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Frumvarpið fer nú til fulltrúadeildar ríkisþingsins þar sem búist er við því að það mæti meiri mótspyrnu.
Meirihluti íbúa Utah er mormónar og eru höfuðstöðvar kirkju þeirra staðsettar í Saltvatnsborg.