„Það liggur við að ég segi að við höfum spilað yfir getu, því við höfum náð algjöru hámarki stiga sem við áttum möguleika á. Þetta er eiginlega súrrealískt,“ sagði þjálfari Rutar Jónsdóttur hjá danska handboltafélaginu Esbjerg, Jesper Jensen, í dag.
Esbjerg tryggði sér í dag sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta þrátt fyrir að enn séu tvær umferðir eftir af riðlakeppninni. Dönsku meistararnir unnu Noregsmeistara Vipers Kristiansand, 35-30, og eru því jafnir Frakklandsmeisturum Metz með 11 stig á toppi 1. riðils. Sigur Esbjerg í dag þýðir jafnframt að Metz er einnig komið í 8-liða úrslit.
Stórlið Rostov Don frá Rússlandi og CSM Búkarest frá Rúmeníu eru í 3.-4. sæti með 9 stig en nú er ljóst að Vipers Kristiansand, sem er í 5. sæti, getur ekki náð efstu tveimur liðunum. Fjögur efstu liðin komast í 8-liða úrslitin.
Rut var ekki á meðal markaskorara Esbjerg í dag.
Handbolti