Erling Braut Håland skoraði enn einn ganginn þegar Borussia Dortmund lagði Werder Bremen að velli, 0-2, í þýsku úrvalsdeildinni í dag.
Þetta var tólfta mark norska framherjans í átta leikjum fyrir Dortmund.
Franski miðvörðurinn Dan-Axel Zagadou kom Dortmund yfir á 52. mínútu eftir sendingu Jadons Sancho. Enski landsliðsmaðurinn hefur nú lagt upp 17 mörk í þýsku deildinni í vetur.
Á 66. mínútu skoraði Håland annað mark Dortmund með föstu hægri fótar skoti eftir sendingu frá Achraf Hakimi.
Dortmund er í 2. sæti deildarinnar með 45 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Bayern München.
Borussia Mönchengladbach fór illa að ráði sínu gegn Hoffenheim. Matthias Ginter kom Gladbach yfir á 11. mínútu en Lucas Ribeiro jafnaði fyrir Hoffenheim í uppbótartíma. Lokatölur 1-1. Gladbach er í 4. sæti deildarinnar með 43 stig.
Köln rúllaði yfir Herthu Berlin í höfuðborginni, 0-5, og Düsseldorf vann gríðarlega mikilvægan sigur á Freiburg, 0-2.
Úrslit dagsins:
Werder Bremen 0-2 Dortmund
Mönchengladbach 1-1 Hoffenheim
Hertha Berlin 0-5 Köln
Freiburg 0-2 Düsseldorf