Erlent

Tveir far­þega Diamond Princess eru látnir

Atli Ísleifsson skrifar
Farþegar um borð í Diamond Princess sem ekki hafa smitast fengu loks að fara frá borði í gær.
Farþegar um borð í Diamond Princess sem ekki hafa smitast fengu loks að fara frá borði í gær. AP

Tveir af farþegunum um borð í farþegaskipinu Diamond Princess sem verið hefur í sóttkví í Yokohama í Japan vegna Covid19-veirusmits eru nú látnir.

Um var að ræða tvo japanska ríkisborgara sem báðir voru á níræðisaldri og með undirliggjandi sjúkdóma. 

Að minnsta kosti 621 af 3.700 farþegum skipsins hafa smitast af veirunni skæðu og er það stærsta þyrping sýktra utan Kína. Japanirnir tveir eru þó þeir fyrstu sem láta lífið í hópnum en þeir höfðu verið fluttir á sjúkrahús í Yokohama til aðhlynningar.

Farþegar um borð í Diamond Princess sem ekki hafa smitast fengu loks að fara frá borði í gær en sumir þeirra þurfa þó að fara í áframhaldandi sóttkví í heimalöndum þeirra en fólkið um borð kemur frá um fimmtíu þjóðlöndum.

Kínverjar fullyrða nú að mjög hafi dregið úr nýjum smitum þar í landi og í gær voru aðeins 394 ný smit staðfest og 114 dauðsföll. Nú hafa rúmlega tvö þúsund látið lífið vegna veirunnar og um 75 þúsund smitast á meginlandi Kína. Um 16 þúsund hinna smituðu hafa síðan náð sér að fullu.


Tengdar fréttir

Úr einni sóttkvínni í aðra vegna kórónaveirunnar

Bandaríkjamenn sem voru á skemmtiferðaskipinu Diamond Princess, sem er í sóttkví í Japan vegna nýju kórónaveirunnar, Covid-19, voru fluttir heim í nótt. Fleiri ríki vinna að því að koma sínu fólki frá borði.

Flogið með banda­ríska far­þega Diamond Princess frá Japan

Tvær flugvélar með bandaríska ferðamenn innanborðs hófu sig til flugs frá flugvellinum í Tókýó í nótt en fólkið hafði verið í sóttkví í skemmtiferðaskipinu Diamond Princess frá því í byrjun þessa mánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×