Innlent

Tvö hand­tekin vegna kanna­bis­ræktunar í heima­húsi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tvö voru handtekin vegna kannabisræktunar í heimahúsi.
Tvö voru handtekin vegna kannabisræktunar í heimahúsi. Vísir/Vilhelm

Tvö voru handtekin við húsleit sem framkvæmd var á þriðja tímanum í dag vegna kannabisræktunar í heimahúsi í austurbænum. Karl og kona voru handtekin vegna málsins. Enginn lögreglubíll var laust til að bregðast við kvörtunum um að fíkniefnaneytendur væru að blanda efni utandyra í austurbænum klukkan þrjú í dag. Var því ekki brugðist við kvörtunum.

Mikið hefur verið um að vera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag og var meðal annars tilkynnt um fimm tilvik af þjófnaði. Þar á meðal höfðu leigjendur stolið sjónvarpi frá hóteli í miðbænum. Þeir skildu einnig eftir sig mikinn sóðaskap, þar á meðal blóðugar sprautunálar. Þá höfðu einhverjir óprúttnir aðilar stolið fatnaði frá erlendum sundgesti í Árbæjarlauginni rétt fyrir klukkan þrjú.

Tilkynnt var um minniháttar eignarspjöll á bifreið um tólf á hádegi og tengdust þau nágrannaerjum. Þá varð umferðarslys í Árbænum um tuttugu mínútur fyrir tvö. Tvær bifreiðar skullu saman og var sjúkrabíll sendur á vettvang. Ekki liggur fyrir hvort slys hafi orðið á fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×