Enski boltinn

„Stuðningsmenn Liverpool eru hræðilegir sigurvegarar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pep Guardiola og Noel Gallagher með deildabikarinn.
Pep Guardiola og Noel Gallagher með deildabikarinn. vísir/getty

Noel Gallagher, fyrrverandi gítarleiki og aðallagahöfundur Oasis og stuðningsmaður Manchester City, segir að stuðningsmenn Liverpool séu óþolandi.

City vann deildabikarinn þriðja árið í röð eftir 2-1 sigur á Aston Villa á Wembley í gær.

Gallagher fagnaði með sínum mönnum inni í búningsklefa eftir leikinn og tók m.a. lagið með þeim. Og í viðtali við talkSPORT lét hann gamminn geysa og lét aðdáendur Liverpool heyra það.

„Þetta var mikilvægur dagur því nú höfum við unnið titil. Og þótt stuðningsmenn Liverpool hafi montað sig mikið hafa þeir verið besta lið Englands einu sinni á síðustu 30 árum. Það þarf að lækka rostann í þeim,“ sagði Gallagher.

„Þeir eru hræðilegir sigurvegarar. Verri taparar en líka slæmir sigurvegarar.“

Gallagher vonast til að City vinni Meistaradeild Evrópu og dreymir um að mæta Liverpool í úrslitaleik keppninnar.

„Það er skrifað í skýin að við mætum þeim í úrslitaleiknum í Istanbúl. Ég finn það á mér og það verður skelfilegt fyrir geðheilsu allra ef við mætum þeim. En ég hlakka til þess sem eftir er af tímabilinu,“ sagði Gallagher.



Liverpool á Englandsmeistaratitilinn vísan en liðið er með 22 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

City varð Englandsmeistari 2018 og 2019 og hefur unnið átta af síðustu níu titlum sem í boði hafa verið á Englandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×