Körfubolti

Eld­ræða Bene­dikts: „Af­hverju ættu menn að koma ef heima­mennirnir vilja ekki einu sinni vera þarna?“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Benedikt Guðmundsson, einn spekinga Domino’s Körfuboltakvölds, hélt ræðu um Fjölni í Dominos Körfuboltakvöldi á föstudagskvöldið en Fjölnir er fallið úr deild þeirra bestu.

Fjölnir fékk skell gegn Njarðvík í vikunni og er fallið úr deildinni eftir erfitt tímabil en Benedikt segir að það þurfi að taka til í hlutunum í Grafarvoginum.

„Ég held að vandamál Fjölnis sé ekki bara þetta tímabil. Ég þjálfaði þarna fyrir mörgum árum, ég bjó þarna og börnin mín hafa einnig verið í þessu félagi,“ sagði Benedikt og ljós að honum er annt um félagið.

„Ég segi þetta með mikilli væntumþykju og er ekki að bauna á eitt eða neitt. Ég er búinn að hafa þá skoðun að Fjölnir þarf að skoða innri strúktur. Þeir eru fastir í því að vera alltaf í uppbyggingu og enn eina uppbygginguna eftir þetta tímabil.“

Benni rifjaði upp gamlan brandara og sagði að hann ætti vel við um Fjölnisliðið

„Ég held að þeir þurfi að fara skoða strúktúrinn. Það er gamall brandari; hver er munurinn á Mexíkó og Los Angeles? Svarið er að það eru fleiri Mexíkanar í Los Angeles. Munurinn á Stjörnunni og Fjölni er að það eru fleiri Fjölnismenn í Stjörnunni en í Fjölni. Þeir eru að ala upp leikmenn fyrir aðra.“

„Þeir reyndu að styrkja sig í sumar. Þeir reyndu að fá Íslendinga og enduðu á því að fá Orra. Auðvitað vilja allir fá einhverja leikmenn sem hafa nafn. Auðvitað er erfitt að fá leikmenn, því það er metnaður í Grafarvoginum, en afhverju ætti menn að koma ef heimamennirnir vilja ekki einu sinni vera þarna?“

„Þeir kjósa frekar að vera í öðrum liðum en Fjölni. Gunnar, Ægir og Addú í Stjörnunni, Hörður og Hjalti í Keflavík, einn flottasti þjálfarinn Pálmar Ragnarsson er ekki að þjálfa þarna hjá heimaklúbbnum. Það er allskonar svona sem menn þurfa að skoða og spyrja sig hvað þeir geta gert til þess að meistaraflokkurinn geti orðið meira aðlaðandi?“

Alla ræðu Benedikts má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×