Innlent

Molta úr lífrænum úrgangi framtíðaráburður

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, þefar af eyfirskri moltu, unna úr ýmsum lífrænum úrgangi.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, þefar af eyfirskri moltu, unna úr ýmsum lífrænum úrgangi.

Molta úr lífrænum úrgangi hefur verið notuð til uppgræðslu í sumar í Krýsuvík og á Norðurlandi. Umhverfisráðherra segir mikil verðmæti felast í innlendri moltu og undirbýr lagasetningu þar sem endurvinnslufyrirtæki eru hvött til moltugerðar.

Mörg tonn af moltu hafa verið notuð í uppgræðslu á örfoka landi í Krýsuvík í sumar. Um er að ræða samstarfsverkefni Landgræðslunnar, endurvinnslu- og sorpfyrirtækisins Terra og umhverfisráðuneytisins.

„Þetta eru þá verkefni þar sem að við erum að setja fjármagn í það að koma moltu sem að hefur verið framleidd á þessum tveimur stöðum, bæði hér fyrir sunnan og fyrir norðan, í vinnu sem áburð inn í landgræðslu og skógrækt. Þar með erum við að búa til verðmæti úr þessum lífræna úrgangi,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra.

Terra hefur tekið á móti um 2.400 tonnum af lífrænum úrgangi frá mötuneytum og heimilum.

„Hér er þá komin efni sem geta styrkt gróður, gert það að verkum að landið sem er verst farið og það er þar sem er verið að dreyfa, að það verður þá betur í stakk búið til að taka við fræi,“ segir Árni Bragason landgræðslustjóri.

„Ég held að þau sem fara með meðhöndlun úrgangs muni í auknum mæli líta til þess að fara í þessa átt og við erum að reyna að tryggja með lagasetningu sem verður lögð fyrir þingið í janúar hvata fyrir fyrirtæki að fara í þessa átt,“ segir Guðmundur Ingi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×