Enn hefur ekki verið ráðið í 76 grunnstöðugildi í 63 leikskólum á vegum Reykjavíkurborgar og sömuleiðis um fjörutíu stöðugildi í 36 grunnskólum.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun þar sem rætt er við Helga Grímsson, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs borgarinnar. Þar segir hann stöðuna þegar kemur að ráðningum á leikskóla vera vonbrigði. „Við héldum að það myndi ganga betur að ráða inn í leikskólana miðað við atvinnuástandið.“
Almennt atvinnuleysi var 7,9 prósent í júlí – hefur farið vaxandi og er búist við að svo verði áfram. Þannig er gert ráð fyrr að það hækki nokkuð í þessum mánuði þegar áhrifa hópuppsagna á vormánuðum fer að gæta í auknum mæli.
Helgi segir að staðan sé ólík milli leikskóla þar sem búið sé að fullmanna marga á meðan aðrir eigi í vandræðum með að fá til sín starfsfólk.
Hann segir ennfremur að betur hafi gengið að ráða í störf á frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum í ár samanborið við í fyrra. Þar sé búið að ráða í 80 prósent stöðugilda, samanborið við 78 prósent á sama tíma á síðasta ári.