Maður lést á Svalbarða eftir árás ísbjarnar í nótt. Enginn annar slasaðist í árásinni en sex ferðamenn voru fluttir undir læknishendur þar sem þau hlutu áfallahjálp, að sögn landstjórans á Svalbarða.
Í frétt norska ríkisútvarpsins segir að ísbjörnin hafi ráðist á manninn á fjórða tímanum í nótt. Hann hafði gist í tjaldi á tjaldsvæði vestan við Longyearbyen ásamt hópi annarra sem sögð eru vera reyndir leiðsögumenn. Maðurinn lést af sárum sínum á sjúkrahúsi og ísbjörninn var skotinn til bana.
Landstjórinn á Svalbarða hvetur fólk til að halda sig frá vettvangi árásarinnar. Svæðið verður að líkindum girt af meðan rannsókn stendur yfir. Þetta er í sjötta sinn frá árinu 1971 sem ísbjörn drepur mann á Svalbarða. Það gerðist síðast árið 2011 þegar sautján ára drengur beið bana.
Yfirvöldum hafa borist margar tilkynninar um ísbirni nálægt mannabyggðum á síðustu vikum og ekki er talið útilokað að ísbjörninn, sem skotinn var til dauða í nótt, sé meðal þeirra sem hraktir hafa verið á brott á síðustu dögum. Þó lítið sé vitað um atburðarásina í nótt á þessari stundu er talið líklegast að ísbjörninn hafi verið í ætisleit.
Ísbirnir á Svalbarða hafa átt erfitt uppdráttar að undanförnu, lítill ís er á svæðinu sem torveldar veiðar þeirra. Þar að auki hafa selir verið af skornum skammti. Af þeim sökum hafa ísbirnirnir þurft að leita sér annarrar fæðu.