Erlent

Rússar hefna sín á Norðmönnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Sendiráð Noregs í Rússlandi.
Sendiráð Noregs í Rússlandi. EPA/Maxim Shipenkov

Yfirvöld í Rússlandi hafa gera háttsettum erindreka frá Noregi að yfirgefa landið og hafa gefið honum þrjá daga. Um hefndaraðgerð er að ræða þar sem Norðmenn sendu rússneskan erindreka úr landi í síðustu viku fyrir njósnir.

Utanríkisráðuneyti Noregs hefur mótmælt ákvörðuninni, samkvæmt NRK, og í yfirlýsingu segir að erindrekinn sem verið sé að reka frá Rússlandi hafi ekki brotið neinar reglur. Það hafi sá rússneski, sem vísað var frá Noregi, gert. Sá heitir Aleksandr Stekolshikov.

Stekolshikov var viðstaddur þegar norskur maður var handtekinn fyrir njósnir. Njósnarinn hafði hitt erindrekann til að láta hann fá leynilegar upplýsingar. Þeir eru sagðir hafa átt marga slíka fundi á undanförnum árum.

Yfirvöld í Rússlandi hafa mótmælt því að lögregluþjónar leituðu í tösku Stekolshikov og segja það vera brot á alþjóðalögum, þar sem hann hafi notið verndar sem erindreki.

Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Rússlands er brottvísinu erindrekans rússneska í síðustu viku lýst sem „óvinsamlegu skrefi“. Þar segir enn fremur að „skaðleg stefna“ yfirvalda í Noregi hafi komið niður á samskiptum ríkjanna og Norðmönnum sé einum um að kenna.

Þetta kemur fram í frétt rússneska ríkismiðilsins TASS.

Það er venja í milliríkjasamskiptum að vísa erindrekum úr landi fyrir erindreka sem vísað er úr landi. Norðmenn eru hins vegar ósáttir við að Rússar eru að vísa mun hátt settari erindreka frá Noregi en Norðmenn vísuðu frá Rússlandi.

Verið er að vísa Jan Flæte úr landi en það er hæst setti erindreki Noregs í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×