Viðskipti innlent

Ekki óskað eftir um­sögnum keppi­nauta Icelandair

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fjárlaganefnd hefur óskað eftir umsögnum um frumvarp um ríkisábyrgð á fimmtán milljarða láni til Icelandair
Fjárlaganefnd hefur óskað eftir umsögnum um frumvarp um ríkisábyrgð á fimmtán milljarða láni til Icelandair Vísir/Vilhelm

Fjárlaganefnd Alþingis hefur óskað eftir umsögn alls átján aðila á frumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um ríkisábyrgð á fimmtán milljarða láni til Icelandair Group. Hvorki var óskað eftir umsögn frá Samkeppniseftirlitinu eða samkeppnisaðilum Icelandair.

Þetta kemur fram á vef Túrista. Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Alþýðusamband Íslands, Ferðamálastofa, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn eru á meðal aðila sem fjárlaganefnd óskaði eftir umsögn frá. Þá var óskað eftir umsögn frá flugfélaginu PLAY, en á vef Túrista er bent á að það sé ekki enn komið með flugrekstrarleyfi.

Túristi bendir þá á að flugfélagið Ernir, sem flýgur innanlands, hafi ekki verið beðið um að leggja fram umsögn. Fyrirtækið er í beinni samkeppni við Air Iceland Connect, dótturfélag Icelandair.

Túristi hefur eftir Willum Þór Þórssyni, formanni fjárlaganefndar, að öllum sé frjálst að senda inn umsagnir. Raunar hvetji Alþingi einmitt til þess. Listinn sem fastanefndir sendi frá sér þegar umsagna er óskað nái oft til stærri aðildarfélaga og samtaka. Því hafi í þessu tilfelli verið óskað eftir umsögnum frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum ferðaþjónustunnar.

Þá er haft eftir honum að í greinargerð frumvarpsins séu ríkisaðstoðarreglur og möguleg samkeppnisröskun á öðrum mörkuðum og í tengdri starfsemi vera meðvituð álitamál. Stjórnvöld hafi litið til þessa og telur Willum að fjárlaganefnd ætti einnig að gera það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×