Sara Björk Gunnarsdóttir var mætt aftur heim til Lyon í morgun er hún ræddi við íþróttadeild Stöðvar 2 um sigurinn magnaða í Meistaradeildinni í gær.
Sara Björk skoraði eitt mark og spilaði allan leikinn er Lyon vann 3-1 sigur á Wolfsburg í úrslitaleiknum í gærkvöldi.
Sara er fyrsti Íslendingurinn sem skorar í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og hún var enn að ná þessu öllu saman er hún ræddi við Ríkharð Óskar Guðnason í morgun.
„Maður er að komast niður á jörðina og átta sig á því að maður sé orðin Evrópumeistari,“ sagði Sara.
„Þetta er búið að vera draumur og markmið ótrúlega lengi. Það er ótrúlega sætt að vera kominn með titilinn í hendurnar.“
Hún ætlaði að taka því rólega í dag og var varla komin á fætur er íþróttadeildin sló á þráðinn til Lyon í morgun.
„Það er tveggja daga frí en ég er ekki einu sinni búin að fá mér að borða. Ætla ég fái mér ekki súkkulaði croissant,“ sagði Sara létt í bragði.