Enski boltinn

Gylfi Þór orðaður við lið í Banda­ríkjunum | Rodrigu­ez að skrifa undir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er orðaður við lið í MLS-deildinni í Bandaríkjunum.
Gylfi Þór Sigurðsson er orðaður við lið í MLS-deildinni í Bandaríkjunum. vísir/getty

Svo virðist sem landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson gæti verið á förum frá enska úrvalsdeildarfélaginu Everton en hann er orðaður við bandaríska félagið DC United. Talið er að James Rodriguez skrifi undir hjá Everton á næstu dögum.

Þá ku Gonzalo Higuain einnig vera á óskalista DC United.

Gylfi Þór Sigurðsson gæti verið á leið í MLS-deildina í Bandaríkjunum ef marka má heimildir vefmiðilsins The Athletic. Þær herma að félagið hafi þegar sett sig í samband við þá sem sjá um mál Gylfa og stefni að því að fá hann í sínar raðir.

Það er þó tekið fram að Gylfi gæti verið hjá Everton þangað til samningur hans rennur út árið 2022. Þá er sagt að ekkert lið í MLS-deildinni geti borgað honum sömu laun og hann er með hjá Everton, rúmlega 100 þúsund pund á viku. 

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Gylfa Þórs undanfarna mánuði en hann segir að svo lengi sem Carlo Ancelotti - þjálfari liðsins - sé sáttur þá sé honum alveg sama hvað er sagt í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Argentíski framherjinn Gonzalo Higuaín einnig á óskalista DC United sem og annarra liða í deildinni en hann er án félags eftir að hafa verið látinn fara frá Ítalíumeisturum Juventus á dögunum.

Það virðist aðeins vera tímaspursmál hvenær Everton staðfestir kaup sín á James Rodriguez, kólumbíska miðjumanni Real Madrid. Hvaða áhrif það hefur á stöðu Gylfa hjá félaginu verður að koma í ljós en Rodrigues líður iðulega best í stöðunni á bakvið fremsta mann.

Wayne Rooney spilaði með DC United frá 2018 til 2020. Skoraði hann 23 mörk í 48 leikjum fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×