Skoðun

Sæ­strengur í ó­skilum

Starri Reynisson skrifar

Síðasta sumar komst fátt annað en þriðji orkupakkinn að í stjórnmálaumræðunni hér á landi. Umræðan var bæði löng og hávær, endalaus uppspretta gífuryrða, dylgja og samsæriskenninga. Miðflokkurinn hélt Alþingi í gíslingu svo vikum skipti. Margt var fullyrt sem átti sér ekki endilega stoð í raunveruleikanum og fjölmörgum dómsdagsspám varpað fram. Í dag er eitt ár liðið frá því að þriðji orkupakkinn var samþykktur á Alþingi og því vel við hæfi að líta aðeins um öxl og skoða hvort eitthvað hafi ræst úr þeim spádómum.

Því var ítrekað haldið fram að samþykkt þriðja orkupakkans myndi færa yfirráð yfir orkuauðlindum úr landi. Hingað myndi koma embættismaður að utan til að sjá um eftirlit með íslenskum orkumarkaði, svokallaður “landsreglari”. Ekkert bólar á þessum embættismanni, eftir sem áður sér Orkustofnun um innlent eftirlit, rammaáætlun er enn í gildi og Alþingi hefur enn ákvörðunarvaldið þegar kemur að virkjanaframkvæmdum.

Lagning sæstrengs er annað þeirra atriða sem mest var hamrað á. Ýmsir fullyrtu að yrði þriðji orkupakkinn samþykktur yrðu íslensk stjórnvöld tilneydd til að leggja sæstreng til meginlands Evrópu. Það er álitamál hvort slík framkvæmd væri jákvæð eða ekki, gott og vel, en umræðan um sæstreng er enn ekkert meira en umræða. Hún hefur lítið þróast eða breyst á síðasta árinu þrátt fyrir samþykkt orkupakkans og ekkert bólar á strengnum.

Þá eru mýmörg dæmi um aðra spádóma Miðflokksins og fylgitungla hans sem ekki hafa ræst. Landsvirkjun hefur ekki verið seld, rafmagnsreikningar landsmanna hafa ekki rokið upp úr öllu valdi, matvælaverð hefur ekki hækkað umfram almenna verðlagsþróun og engar atvinnugreinar hafa lagst niður vegna samþykktar þriðja orkupakkans.

Umræða byggð á staðreyndum er forsenda heilbrigðrar ákvarðanatöku. Víða um heim hefur þó orðið þróun í gangstæða átt, stjórnmálamenn og flokkar sem virða staðreyndir að vettugi og skrumskæla sannleikann til að auka eigin áhrif hafa skotið upp kollinum og náð að hasla sér völl. Umræðan um orkupakkann sýnir svart á hvítu að við höfum ekki farið varhluta af þeirri þróun. Kjósendur ættu að varast snákaolíuna sem slíkir stjórnmálamenn munu reyna að selja í kosningunum að ári.

Höfundur er forseti Uppreisnar: Ungliðahreyfingar Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×