Vegagerðin hefur hafnað lægsta tilboði í endurbyggingu þjóðvegarins yfir Dynjandisheiði vegna reynsluleysis verktakans af stórverkum og þess í stað ákveðið að semja við þann verktaka sem átti næstlægsta boð. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Uppbygging Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði er risavaxið verkefni en Vegagerðin bauð út fyrsta áfangann í sumar, 5,7 kílómetra kafla í Arnarfirði, um Meðalnes nyrst við Dynjandisvog, og einnig 4,3 kílómetra kafla syðst ofan Flókalundar, um Þverdalsá og Pennusneiðing.
Vegagerðin hefur núna ákveðið að hafna lægsta tilboðinu, sem var frá Borgarverki í Borgarnesi, upp á rúmar sautjánhundruð millónir króna, eða þrettán prósentum yfir liðlega fimmtánhundruð milljóna króna kostnaðaráætlun, og þess í stað ákveðið að semja við Íslenska aðalverktaka, sem buðu 25 milljónum hærra og áttu næstlægsta boð af fjórum.

Samkvæmt upplýsingum Óskars Arnar Jónssonar, forstöðumanns framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, er ástæðan sú að Borgarverk stóðst ekki kröfur útboðsins um reynslu af stórum verkum. Kveðst Óskar reikna með að samningar við Íslenska aðalverkaka verði kláraðir í næstu viku.
Borgarverk fékk hins vegar í sárabætur sjö kílómetra kafla í Gufufirði, átti þar lægsta og raunar eina tilboðið, upp á 305 milljónir króna, og þótti því hafa næga reynslu til að takast á við fyrsta áfanga Vestfjarðavegar um Gufudalssveit.
Alla þessa vegarkafla á að vinna rösklega, framkvæmdir fara á fullt í haust, og eiga þeir vera tilbúnir innan árs með bundnu slitlagi. Með því bætast við 17 kílómetrar af malbiki á suðurleiðinni til Ísafjarðar, ofan á 27 kílómetra styttingu sem fæst í haust með opnun Dýrafjarðarganga.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: