Fótbolti

„Skiptir ekki máli hvern við dekkum“

Sindri Sverrisson skrifar
Ari Freyr Skúlason í viðtali í dag.
Ari Freyr Skúlason í viðtali í dag. MYND/STÖÐ 2 SPORT

„Það skiptir ekki máli hvern við dekkum þarna,“ segir Ari Freyr Skúlason um hið ógnarsterka belgíska lið sem Ísland mætir ytra annað kvöld í Þjóðadeildinni í fótbolta.

Ísland fór til Belgíu eftir 1-0 tapið gegn Englandi á Laugardalsvelli á laugardaginn. Ari tók ekki þátt í þeim leik en verður með á morgun, í landinu sem hann hefur átt heima í síðustu fjögur ár.

„Það var mjög svekkjandi [að tapa gegn Englendingum]. Við lékum mjög góðan varnarleik og allir stóðu sig mjög vel – unnum vel fyrir hvern annan og börðumst vel. 0-0 eða 1-1 hefði verið frábær úrslit fyrir okkur,“ sagði Ari í dag. Hann hlakkar til að spila í Belgíu:

„Það er alltaf gaman. Maður hefur spilað á móti nokkrum strákanna og þekkir þetta lið inn og út þannig lagað séð. Þetta er frábært lið og frábærir fótboltamenn, en aðalatriðið er að hugsa um hvað við ætlum að gera, hvernig við ætlum að spila, og byggja ofan á það,“ sagði Ari.

Ari er hvergi smeykur fyrir leikinn erfiða á morgun, þrátt fyrir að í íslenska hópinn vanti Gylfa, Jóhann, Aron, Kára, Ragnar, Hannes, Alfreð og fleiri.

„Nei, alls ekki. Við erum með unga stráka sem fá tækifæri og þeir sýndu hvað þeir geta í síðasta leik. Vonandi geta fleiri komið inn og sýnt að þeir eiga skilið að vera í þessum hópi. Okkar vinnuframlag er númer 1, 2 og 3 og það vita allir hvað þeir eiga að gera,“ sagði Ari, og bætti við:

„Við þurfum að vera góðir varnarlega og reyna að nýta tækifærið þegar við fáum skyndisóknir. Við þekkjum alla þarna. Við sjáum að [Kevin] De Bruyne var að koma aftur inn og þeir [Eden] Hazard eru náttúrulega frábærir leikmenn. En Belgía sem lið er bara í heildina frábært lið. [Roberto] Martínez er búinn að gera frábæra hluti með þá, skapa sigurhefð og sigurhugarfar, og það skiptir ekki máli hvern við dekkum þarna. Við þurfum bara að hugsa um okkar taktík,“ sagði Ari.

Klippa: Ari Freyr í viðtali í Belgíu

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×