Lyfjarisinn AstraZeneca hefur nú frestað tímabundið lokaprófunum á bóluefni fyrir kórónuveirunni. Ástæða frestunarinnar er sú að einn þeirra sem tekið hafa þátt í prófunum á efninu fékk óútskýrðar aukaverkanir eftir að efninu hafði verið sprautað í hann.
AstraZeneca hefur unnið að þróun efnisins í samstarfi við Oxford-háskóla á Englandi. Fyrirtækið segir að það sé alvanalegt að þróun bóluefna sé frestað á þennan hátt en ekkert hefur verið gefið út um hvers kyns aukaverkanir var að ræða. Vonast er til að prófanir geti hafist að nýju innan nokkurra daga. Þetta er í annað sinn sem prófunum á efninu er frestað.
AstraZeneca hefur verið sá framleiðandi sem einna mestar vonir hafa verið bundnar við þegar kemur að þróun bóluefnis gegn veirunni. Bóluefnið hefur þegar komist í gegnum tvö stig prófana, að því er fram kemur í frétt BBC. Þriðja stigið, sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur, felst í prófunum á um þrjátíu þúsund sjálfboðaliðum í Bandaríkjunum, Bretlandi, Brasilíu og Suður-Afríku.
Lyfjarisinn gerði nýverið samning við Evrópusambandið um afhendingu bóluefnis til allra sambandsþjóða – þegar efnið lítur dagsins ljós. Ísland er aðili að þeim samningi.