Erlent

Banna dvöl fólks í al­mennings­görðum á Nørrebro

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Nørrebroparken í Kaupmannahöfn.
Frá Nørrebroparken í Kaupmannahöfn. Visit Copenhagen

Lögregla í Danmörku hyggst um helgina banna dvöl fólks á ákveðnum svæðum í tveimur almenningsgörðum á Nørrebro í Kaupmannahöfn til að koma í veg fyrir fjölmennar samkomur.

Ungmenni hafa flykkst í garðana að undanförnu og er talið að einhverjir hafi þar smitast af kórónuveirunni, en garðarnir verða lokaðir bæði á kvöldin og um helgar.

Smitum hefur fjölgað umtalsvert í Danmörku á síðustu dögum og vikum, sér í lagi í hópi ungs fólks, og hafa yfirvöld nú ákveðið að koma á banninu í Nørrebroparken-Hørsholmparken og í hjólabrettagarðinum (d. Skateparken).

Erfiðlega hefur gengið að tryggja að sóttvarnareglum sé þar fylgt, að því er fram kemur í máli Anne Tønnes hjá Kaupmannahafnarlögreglunni. Áfram verður heimilt fyrir skokkara að fara um garðinn, en bann er lagt við að stalra við í görðunum.

Þeir sem gerast brotlegir við reglurnar þurfa að greiða sekt upp á 2.500 danskar krónur, um 55 þúsund íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×