Samskiptaráðgjafar í heilbrigðisráðuneyti Bandaríkjanna, sem skipaðir voru af Donald Trump Bandaríkjaforseta, hafa óskað eftir því að fá að fara yfir og gera breytingar á vikulegum skýrslum Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna um þróun kórónuveirufaraldursins. Starfsmenn innan ráðuneytisins hafa lýst þessu sem tilraun til að skelfa höfunda skýrslnanna og draga úr samskiptum þeirra við heilbrigðisstarfsmenn.
Í tölvupóstum sem Politico hefur undir höndum sem sendir voru af samskiptaráðgjöfum til Robert Redfield, yfirmanns sóttvarnastofnunarinnar, segir að skýrslurnar geri lítið úr „jákvæðum skilaboðum“ Donalds Trumps um framgang faraldursins.
Starfsmenn sóttvarnastofnunarinnar hafa reynt að koma í veg fyrir mestu breytingarnar en hafa á síðustu vikum samþykkt oftar að heimila samskiptaráðgjöfunum að fara yfir, og í sumum tilfellum, að breyta orðalagi að sögn þriggja aðila sem þekkja málið vel. Tilraunir samskiptaráðgjafanna til að breyta orðalagi í skýrslunum hafa verið stöðugar í sumar og síðasta tilraun til þess var gerð í gær, föstudag.
Skýrslur sóttvarnastofnunarinnar um útbreiðslu og dánartíðni vegna veirunnar eru aðal miðill stofnunarinnar til að upplýsa lækna, vísindamenn og almenning um útbreiðslu veirunnar og hverjir séu í mestum áhættuhópi. Samkvæmt frétt Poitico hafa slíkar skýrslur í gegn um tíðina verið birtar án nokkurra pólitískra afskipta.
En síðan Michael Caputo, fyrrverandi meðlimur kosningastjórnar Trump sem er ómenntaður í læknavísindum, tók við sem upplýsingafulltrúi heilbrigðisráðuneytisins í apríl á þessu ári hafa tilraunir til að hafa áhrif á skýrslurnar svo þær stemmi við orðræðu forsetans, eða að koma í veg fyrir birtingu þeirra verið ítrekaðar.
Caputo og starfsmenn hans hafa ítrekað gert tilraunir til að bæta viðvörunum við niðurstöður sóttvarnastofnunarinnar og hafa þeir einnig gert tilraunir til að breyta skýrslum stofnunarinnar afturvirkt, sem þeir segja gera of mikið mál úr áhrifum kórónuveirunnar. Þá hafi þeir viljað að gert væri ljóst í skýrslunum að Bandaríkjamenn sem smitast hafi af veirunni hafi getað smitast af henni vegna hegðunar þeirra sjálfra.