Lögreglan á Suðurnesjum hefur birt myndband úr öryggismyndavélum þar sem þrír óprúttnir aðilar sjást ganga upp að vallarhúsinu við Rafholtsvöll í Njarðvík og brjóta sér leið inn í húsið. Talið er að aðilarnir hafi haft með sér á brott talsvert magn af raftækjum.
Aðilarnir sjást ganga á allar dyr og glugga sem endar með því að þeir brjóta sér leið inn með því að sparka upp hurðinni sem vísar að vellinum.
Fartölvu, vallarhátölurunum, soundbar, myndvarpa, PS4 tölvu og fleira var stolið samkvæmt Facebook-færslu knattspyrnudeildar Njarðvíkur. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu og skorar lögreglan á alla þá sem þekkja til aðilana að hafa samband við lögreglu.
Þá skorar hún einnig á aðilana sem sjást á myndskeiðinu að gefa sig fram til lögreglu og skila því sem var tekið.