Álfheiður Ágústsdóttir hefur tekið við starfi forstjóra Elkem á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Álfheiður hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra fjármála og innkaupa hjá Elkem undanfarin ár.
Þá segir í tilkynningu að Einar Þorsteinsson fráfarandi forstjóri hafi af persónulegum ástæðum óskað eftir að draga úr vinnuframlagi sínu og ábyrgð. Hann muni taka sér stöðu við hlið nýráðins forstjóra sem ráðgjafi á sviði orkumála og vinnumarkaðar.
Álfheiður hóf störf hjá Elkem Ísland sem sumarstarfsmaður árið 2006, fyrst í framleiðslunni og síðar á fjármálasviði. Í upphafi sinnti hún ýmsum störfum hjá Elkem samhliða námi sínu í reikningshaldi og endurskoðun og hefur síðan verið í fullu starfi frá árinu 2009.
Haft er eftir Álfheiði í tilkynningu að verkefnin framundan séu bæði spennandi og krefjandi. Hún þekki starfsfólkið og verksmiðjuna á Grundartanga vel. Þá þakkar hún forvera sínum Einari fyrir framlag sitt til starfsemi Elkem um árabil.
Elkem á Íslandi framleiðir og selur kísilmálm. Fyrirtækið rekur kísilver á Grundartanga.