Erlent

Ruth Bader Ginsburg látin

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ruth Bader Ginsburg var 87 ára.
Ruth Bader Ginsburg var 87 ára. Shannon Finney/Getty

Ruth Bader Ginsburg, dómari við hæstarétt Bandaríkjanna, er látin.

Ginsburg var 87 ára að aldri. Dánarorsökin voru eftirköst krabbameins í brisi sem hún hafði glímt við. AP-fréttaveitan greinir frá þessu og vísar í tilkynningu frá hæstarétti Bandaríkjanna. Þar kemur fram að hún hafi látist á heimili sínu í dag. Yfir ævi sína greindist Ginsburg alls fimm sinnum með krabbamein.

Bader Ginsburg var fædd þann 15. mars 1933 í Brooklyn í New York. Hún var skipuð í embætti hæstaréttardómara 10. ágúst árið 1993 af Bill Clinton, þáverandi Bandaríkjaforseta og var önnur konan til að gegna embætti dómara við réttinn. Hún hafði því gegnt embætti hæstaréttardómara í rúm 27 ár þegar hún lést.

Ginsburg stundaði nám við þrjá háskóla á námsferli sínum, Cornell, Harvard og Columbia.

Í viðtali skömmu fyrir dauða sinn sagði Ginsburg, sem hefur verið talin til frjálslyndari dómara við hæstarétt, að það væri einlæg ósk hennar að eftirmaður hennar við réttinn yrði ekki skipaður fyrr en nýkjörinn forseti tæki við embætti.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×