Staðan á máli egypsku fjölskyldunnar sem vísa átti úr landi í síðustu viku er enn óbreytt á borði stoðdeildar ríkislögreglustjóra. Unnið er úr vísbendingum um dvalarstað fjölskyldunnar og þeim fylgt eftir, samkvæmt upplýsingum frá samskiptastjóra almannavarna.
Til stóð að vísa Khedr-fjölskyldunni, foreldrum og fjórum börnum þeirra, úr landi á miðvikudag. Fjölskyldan var farin í felur þegar fulltrúar stoðdeildar mættu til að fylgja henni úr landi. Fjölskyldan er því talin dvelja hér enn.
Þá greindi Fréttablaðið frá því á föstudag að stoðdeildin hefði unnið eftir vísbendingum sem borist hefðu um dvalarstað fjölskyldunnar.
Jóhann K. Jóhannsson samskiptastjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra segir í samtali við Vísi að staða málsins sé óbreytt frá því á föstudag. Enn sé verið að vinna úr vísbendingum. Inntur eftir því hvers eðlis vísbendingarnar séu segir Jóhann að þær komi úr mismunandi áttum. Ábendingum sé jafnframt fylgt eftir.
Þá sé ákvörðun um brottvísun fjölskyldunnar enn í gildi. Ekki hefur verið ákveðið hvort lýsa eigi formlega eftir fjölskyldunni að svo stöddu.