Erlent

Lögregla skaut mann til bana á Þelamörk

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn var skotinn við Bolkesjø á Þelamörk í Noregi.
Maðurinn var skotinn við Bolkesjø á Þelamörk í Noregi. Vísir/getty

Lögregla á Þelamörk í Noregi skaut mann á fertugsaldri til bana við Bolkesjø síðdegis í dag. Félagar mannsins sem vitjuðu hans í dag segja að hann hafi komið á móti þeim með öxi á lofti.

Lögreglu var tilkynnt um manninn á fjórða tímanum. Fram kemur í yfirlýsingu frá lögreglu vegna málsins að maðurinn hafi borið sig undarlega og sýnt af sér ógnandi tilburði við annað fólk á staðnum. Lögreglumenn hafi þurft að grípa til vopna eftir samskipti við manninn og að endingu hleypt af nokkrum skotum.

Maðurinn var loks úrskurðaður látinn eftir að endurlífgunartilraunir á vettvangi báru ekki árangur. Aðstandendum hans hefur verið gert viðvart. Rannsóknarlögreglumenn eru nú að störfum á vettvangi. 

Fram kemur í frétt norska dagblaðsins VG að tveir samstarfsmenn mannsins hafi haft áhyggjur af honum og vitjað hans í dag. Maðurinn hafi ekki viljað hleypa þeim inn og þeir því reynt að komast inn um bakdyr. Þar hafi maðurinn mætt þeim með öxi á lofti og þeir í kjölfarið hringt á lögregluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×