Enski boltinn

Sögulegt tap hjá Guardiola

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Vesen.
Vesen. vísir/Getty

Manchester City steinlá fyrir Leicester City í stórleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni en um var að ræða sögulega stund fyrir knattspyrnustjóra Man City, hinn sigursæla Pep Guardiola.

Þessi 49 ára gamli Spánverji á einn glæsilegasta þjálfaraferil sem um getur en hann hefur unnið til fjölda verðlauna síðan hann tók við stjórnartaumunum hjá uppeldisfélagi sínu, Barcelona, árið 2008. Þar vann hann allt sem hægt var að vinna og var sömuleiðis sigursæll með Bayern Munchen.

Guardiola hefur gert Man City að Englandsmeisturum í tvígang en úrslit leiksins í gær eru að mörgu leyti þau verstu á hans farsæla ferli.

Þetta er í fyrsta sinn á þjálfaraferli Guardiola sem hann horfir upp á lið sitt fá á sig fimm mörk en alls hefur hann stýrt 686 leikjum.

Jamie Vardy gerði þrennu en þetta er í annað sinn sem hann skorar þrennu gegn liði Guardiola. Aðeins einn annar leikmaður hefur skorað þrennu gegn liði Guardiola, sjálfur Lionel Messi.

Varnarleikur Man City var liðinu til vandræða á síðustu leiktíð og gerði það að verkum að liðið gat illa keppt við Liverpool um Englandsmeistaratitilinn. Nokkuð ljóst er að Guardiola hefur enn verk að vinna varðandi varnarleikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×