Erlent

Boða frelsun höfrunganna og loka minkabúum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
gettyimages-691143733-170667a

Barbara Pompili, umhverfisráðherra Frakklands, boðaði í dag umfangsmiklar breytingar sem er ætlað að auka velferð villtra dýra.

Á innan við fimm árum verður búið að innleiða víðtæktbann sem gerir sædýragörðum óheimilt að halda höfrunga og háhyrninga, minkabú verða ólögleg og þá verður óheimilt að hafa villt dýr með í för fjölleikahópa.

Á næstu árum verður óheimilt að hafa birni, ljón, fíla og önnur villt dýr með í ferðalögum fjölleikahópa. Í árafjöld hefur víða um heim tíðkast að hafa villt dýr með í ferðalögum fjölleikahópa þar sem listafólk jafnt sem villt dýr leika ýmsar listir.

Þegar í stað verður þremur sædýragörðum, sem starfræktir eru í Frakklandi, bannað að sækjast eftir fleiri höfrungum og háhyrningum auk þess sem þeim verður heldur ekki heimilt að rækta þá.

Franska ríkisstjórnin kynnti aðgerðapakka samhliða nýrri stefnu um dýravernd sem miðar að því að auðvelda fólki sem vinnur á stöðum á borð við sædýragarða og fjölleikahús að finna sér annað starf. Heildarupphæð aðgerðapakkans nemur átta milljónum Evra.

„Nú er kominn tími til að hefja nýtt tímabil í samskiptum manna og villtra dýra,“ sagði ráðherrann á blaðamannafundi. Velferð dýra væri forgangsmál.

Á innan við fimm árum verður búið að banna með öllu minkaeldi en á minkabúum eru dýrin eingöngu ræktuð í þeim tilgangi að koma feldinum á þeim í sölu.

Ráðherrann sagði að ástæðan fyrir því að stjórnvöld hygðust innleiða bannið á fimm árum sé sú að bannið myndi hafa mikil áhrif á líf fjölda fólks og því sé rétt að gefa svigrúm til aðlögunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×