Íslenski boltinn

Víkingar enduðu átta inn á vellinum í síðasta KR-leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hafa verið læti í leikjum Víkinga og KR-inga.
Það hafa verið læti í leikjum Víkinga og KR-inga. Vísir/Hag

Víkingar taka á móti KR í Pepsi Max deild karla í fótbolta í kvöld en það eru örugglega margir sem muna eftir látunum í fyrri leik liðanna fyrir 89 dögum.

KR vann 2-0 sigur á Víkingi í fjórðu umferðinni en leikurinn fór fram 4. júlí á Meistaravöllum. KR skoraði fyrra markið á 58. mínútu en þá voru Víkingar orðnir manni færri.

Seinna markið kom síðan ekki fyrr en á 87. mínútu en þá voru Víkingar átta inn á vellinum á móti ellefu KR-ingum.

Kári Árnason fékk rautt spjald á 27. mínútu, Sölvi Geir Ottesen fékk rautt spjald á 77. mínútu og Halldór Smári Sigurðsson fékk síðan rauða spjaldið á 85. mínútu.

Helgi Mikael Jónasson dómari sýndi Víkingum enga miskunn og varð fyrsti dómarinn í tólf ár til að reka þrjá leikmenn af velli úr sama liði.

Garðar Örn Hinriksson rak Grindvíkingana Marinko Skaricic, Zoran Stamenic og Scott Mckenna Ramsay útaf í rautt spjald í leik á móti Fram 8. júní 2008 og þjálfarinn Milan Stefán Jankovic og forráðamaðurinn Ingvar Guðjónsson fengu þá líka rautt. Helgi Mikael rak enga starfsmenn Víkinga af velli en tveir þeirra fengu gult spjald fyrir kröftug mótmæli.

Víkingar fengu líka 17.500 króna sekt vegna þrettán refsistiga sem þeir fengu í leiknum. Kári og Halldór Smári fengu báðir einn leik í bann en Sölvi Geir Ottesen fékk þriggja leikja bann fyrir ofsalega framkomu eins og segir í niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar.

KR-ingar eru búnir að vinna fjóra deildarleiki í röð á móti Víkingum eða allt frá því að Víkingum tókst að vinna 1-0 á KR-vellinum 1. júlí 2018. Víkingar hafa aftur á móti ekki unnið KR-inga í Víkinni í meira en fjögur ár eða síðan 25. júlí 2016.

Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun um fyrsta rauða spjald Víkinga í Pepsi Max Tilþrifunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×