Fótbolti

Glódís Perla spilar í bleiku allan þennan mánuð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir í bleika búningnum sem hún mun spila í allan októbermánuð.
Glódís Perla Viggósdóttir í bleika búningnum sem hún mun spila í allan októbermánuð. Instagram/@glodisperla

Íslenska landsliðskonan Glódís Perla Viggósdóttir og félagar hennar í sænska liðinu Rosengård ætla að leggja mikilvægu málefni lið í þessum mánuði.

Glódís Perla birti mynd af sér í bleikum búningi á Instagram og sagði frá því að hún muni ásamt liðsfélögum sínum spila í bleiku allan október.

„Allan október munum við spila í bleiku til að vekja athygli á brjóstakrabbameini og safna pening fyrir mikilvægt málefni. Vertu með og legðu þitt af mörkum,“ skrifaði Glódís Perla eins og sjá má hér fyrir neðan.

Þessi mánuður verður líka mjög mikilvægur fyrir Rosengård í baráttunni um sænska meistaratitilinn en liðið spilar þrjá leiki í október. Leikirnir eru á móti Kristianstad, Linköping og Vittsjö sem eru einmitt öll meðal fimm efstu liða deildarinnar.

Rosengård er með eins stigs forskot á Kopparbergs/Göteborg þegar 16 af 22 leikjum eru búnir. Það eru því sex leikir eftir af sænsku deildinni sem klárast í nóvember.

Glódís Perla hefur spilað alla sextán leiki Rosengård á tímabilinu og skorað í þeim tvö mörk. Rosengård hefur unnið tólf af þessum leikjum og aðeins tapað einu sinni. Markatalan 45-7.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×