Erlent

Ný bylgja í Rússlandi að ná hinni stóru

Samúel Karl Ólason skrifar
Heilbrigðisstarfsmenn við störf í Moskvu.
Heilbrigðisstarfsmenn við störf í Moskvu. AP/Dmitri Lovetsky

Ríkisstjórn Vladimír Pútín í Rússlandi, er ekki með áætlanir um að setja aftur á takmarkanir og hertar sóttvarnarreglur vegna uppsveiflu Covid-19 þar í landi. Síðasta sólarhringinn greindust 9.412 smitaðir í Rússlandi og hafa þeir ekki verið fleiri á einum degin frá 1. júní. Heilt yfir hafa 1,2 milljónir smitast.

Rúmlega 222 þúsund eru sagðir undir eftirliti lækna þessa dagana. Fólki með virk smit fjölgaði um 16,5 prósent á milli september og ágúst.

Í frétt Moscow Times segir að þessi bylgja sem gengur nú yfir landið sé að nálgast þá fyrstu, með tilliti til fjölda smitaðra. Læknar í Moskvu segja að ekki séu til nægjanleg gjörgæslurúm í borginni til að anna þeim sem hafa veikst.

Mikið álag á sjúkrahúsum í Moskvu

Mikil fjölgun veikra hefur aukið álag á sjúkrahús og heilbrigðisstarfsmenn. Einn hjúkrunarfræðingur sem MT ræddi við segir álagið á sig vera tvöfalt verra en það var í sumar. Í sumar hafi tveir hjúkrunarfræðingar verið með tólf til 15 sjúklinga. Nú séu þeir um 40.

Verið er að setja upp fleiri sjúkrarúm í borginni og er meðal annars verið að endurræsa þrjú bráðabirgðasjúkrahús sem reist voru í sumar.

Ríkisstjórn Rússlands fundaði á þriðjudaginn og var þá kallað eftir því að íbúar landsins væru með grímur og stunduðu félagsforðun og persónulegar sóttvarnir.

Sergei Sobyanin, borgarstjóri Moskvu, tilkynnti í vikunni tveggja vikna frí í skólum borgarinnar, og vísaði hann til þess að mörg börn hafa greinst með veiruna án þess að sýna einkenni. Hann hefur sömuleiðis lagt til að starfsmenn rúmlega fimm þúsund fyrirtækja vinni heima hjá sér um tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×