Menning

Syngur um konuna sem fannst látin í Ísdalnum

Tinni Sveinsson skrifar
Snorri Helgason. Myndband við lagið Gleymdu mér.
Snorri Helgason. Myndband við lagið Gleymdu mér.

Snorri Helgason hefur sent frá sér lagið Gleymdu mér. Það er hluti af sýningunni Útlendingurinn - Morðgáta, sem fjallar um ráðgátuna um konuna sem fannst látin í Ísdalnum í Noregi fyrir um hálfri öld síðan. Sýningin verður frumsýnd á Litla sviðinu í Borgarleikhúsinu í kvöld.

Útlendingurinn er skandinavískt raunsæisglæpadrama þar sem mál „Ísdalskonunnar“ er nálgast á frumlegan hátt og nýjar kenningar dregnar fram í dagsljósið.

Friðgeir Einarsson og Snorri Helgason eru flytjendur í verkinu, Friðgeir er jafnframt höfundurinn og Snorri semur tónlistina. Þetta er annað verkið frá sama listræna teymi og setti upp verðlaunasýninguna Club Romantica, í þessum ráðgátuþríleik.

Klippa: Gleymdu mér - Snorri Helgason

Mál konunnar í Ísdalnum hefur á síðustu árum orðið eitt þekktasta óupplýsta lögreglumál Norðurlandanna.

Nakið og illa brunnið lík fannst í stórgrýtisurð rétt utan við miðbæ Bergen. Allar vísbendingar um hver konan er höfðu verið fjarlægðar. Í áratugi hefur enginn náð að þoka málinu áfram.

Vísir fjallaði ítarlega um málið í samstarfi við NRK fyrir nokkrum árum og má lesa þá umfjöllun í hlekknum hér fyrir neðan.

„Ferlið að verkinu hófst þegar Friðgeir Einarsson flutti til Bergen, en hann heillast af ráðgátunni og gerir sitt besta til að upplýsa hana. En kannski ekki á þann hátt sem búast hefði mátt við. Friðgeir er hvorki lögreglumaður, né með reynslu af rannsóknarstörfum, en telur sig hafa ákveðna innsýn inn í hugsunarhátt konunnar. Hann er jú aðkomumaður, rétt eins og hún var,“ segir í tilkynningu frá Borgarleikhúsinu.

Leikstjórn er í höndum Péturs Ármannssonar. Brynja Björnsdóttir hannaði leikmynd og búninga. Pálmi Jónsson hannaði lýsingu og Þorbjörn Steingrímsson gerði hljóðmynd verksins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×